Minningargreinar

Eftirfarandi greinar birtust í Morgunblaðinu í júlí 2011

Um Sigþrúði

Sigþrúður Pálsdóttir fæddist í Reykjavík 22.11. 1954 og lést á Líknardeild Landspítalans 30. 6. 2011 eftir snarpa baráttu við krabbamein. Foreldrar hennar voru Páll S. Pálsson hrl., f. í Sauðanesi, A-Hún. 29.1. 1916, d. 11.7. 1983 og Guðrún Stephensen kennari, f. í Selkirk, Kanada 11.5. 1919, d. 17.11. 2003. Hálfbróðir Sigþrúðar samfeðra: 1) Hlöðver Pálsson, (Jack Gilbert Hills) f. 15.5. 1943. Alsystkini Sigþrúðar: 2) Stefán, f. 3.7. 1945, 3) Sesselja (Sella), f. 25.10. 1946, Páll Arnór, f. 5.6. 1948, 5) Signý, f. 11.3. 1950, 6) Þórunn, f. 3.11. 1951, 7) Anna Heiða, f. 14.5. 1956 og 8) Ívar, f. 26.2. 1958. Dóttir Sigþrúðar og Anthony L. Eaton, f. 1943 er Sunna Guðrún Eaton, f. 24.11. 1982. Börn Sunnu: 1) Frosti Eaton, f. 3.1. 2003, 2) Freyja Eaton, f. 25.5. 2004, 3) Freyr Eaton, f. 17.11. 2006 og 4) Max Rúnarsson, f. 19. 9. 2010. Sigþrúður, kölluð Sissú, lauk gagnfræðaprófi frá Hagaskóla, nam vetrarlangt við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og lauk diplómanámi frá Bergenholtz Reklame Fagskole í Kaupmannahöfn 1972. Árið 1973 sótti hún kúrsa við Det Kongelige Kunstakademi og ítölskunám við Universita per Stranieri í Perugia. Í febrúar 1974 varð hún fyrir alvarlegu slysi við Skíðaskálann í Hveradölum og því bundin hjólastól ævilangt. Eftir endurhæfingu á Grensásdeild, í Holbæk í Danmörku og nálastungumeðferð í París hélt nún áfram námi. Hún nam við Art Students League of New York 1977-78, og School of Visual Arts, N.Y.C 1979-82 með BFA í myndlist. Í nóvember sama ár fæddist Sunna. Heimkomin hélt Sissú 8 einkasýningar á 6 árum með stórum olíumálverkum og skúlptúrum eins og sjá mátti allt frá Gallerí Bleikfríði 1983 til Kjarvalsstaða 1988 og Schwab Art Festival í Chicago sama ár. Síðan tileinkaði hún sér marga aðra miðla, samtvinnaði list sína brennandi áhuga sínum á margvíslegri tækni og vísindum og fór ótroðnar slóðir. Árin 1990-95 stundaði Sissú meistaranám í arkitektúr við University of New Mexico í Albuquerque. Þar var hún valin „outstanding graduate student of the year“ árið 1993. Fyrstu árin eftir heimkomu vann hún jöfnum höndum að myndlist, hönnun og arkitektúr, m.a. á Teiknistofu Guðrúnar Jónsdóttur. Sissú var mjög umhugað um nýjar rannsóknir á mænusköðum og lagði sitt af mörkum til þess að auka samstarf vísindafólks um heiminn á því sviði. Hún var ein af stofnendum SEM – samtaka endurhæfðra mænuskaddaðra og síðar ritstjóri og hönnuður tímarits þeirra. Hún hvatti til að mænuskaddaðir hefðu þann valkost að geta búið utan sambýlis, hannaði og breytti íbúð og fyrrum verslun á horni Sörlaskjóls og Faxaskjóls í ævintýralegt heimili og einkagallerí. Sissú hélt 20 einkasýningar – síðast á Ljósmyndasafni Reykjavíkur 2008 og tók þátt í margvíslegum samsýningum, síðast á Listamiðstöðinnni Nesi á Skagaströnd 2009. Hún var meðlimur í Félagi íslenskra myndlistarmanna og sambandsráðsfulltrúi félagsmanna með einstaklingsaðild að Sambandi íslenskra myndlistarmanna. Útför Sigþrúðar fer fram frá Hallgrímskirkju í Reykjavík í dag, 7. júlí 2011 og hefst athöfnin kl. 15.

Amma okkar

Amma okkar var best í öllum heiminum, hún fór oft með okkur út í sjoppu og keypti trúðaís og tyggjó handa okkur. Amma var oft með okkur úti á palli heima hjá sér og kom út með frostpinna í tjaldið sem hún hafði sett upp fyrir okkur á pallinum sínum.

Á mæðradaginn gáfum við henni flott blóm. Hún fór oft með okkur á söfn, eftirminnilegast var þegar hún fór með okkur á Árbæjarsafnið. Það var svo gaman þegar hún fór með okkur í Bláa lónið, hún elskaði Bláa lónið. Amma kenndi okkur að fara með vísuna um Óla prik. Við munum sakna þess að fara í sumarbústað með ömmu og bíltúranna til Hveragerðis. Hún kom stundum heim til okkar á kvöldin og las fyrir okkur fyrir svefninn. Við munum sakna þess að hafa ekki ömmu okkar á páskunum, jólunum og áramótum því hún gerði hátíðirnar svo skemmtilegar.

Við söknum og elskum þig, elsku amma.

Frosti, Freyja og Freyr.

"When I think of angles I think of you."

Eftir hörmulegt slys í Hveradölum fyrir 38 árum, sem batt Sissú við hjólastól alla ævi, sannaði hún og sýndi í verki að ekkert er ómögulegt. Námið átti hug hennar allan og hún hélt því áfram um leið og hún gat. Í NY stóð Sella systir hennar sem klettur á bak við hana og það gerðu öll hennar góðu systkini alla tíð. Útskrifuð kom Sissú heim 1982 og fæddi sólargeislann sinn, Sunnu Guðrúnu Eaton, um haustið. Þvílík kraftaverkakona!

Eftir sex skemmtileg ár á Vesturvallagötunni hélt hún aftur til Ameríku í framhaldsnám í arkitektúr. Sunna fór að sjálfsögðu með og fetaði þroskabrautina í faðmi elskandi, skapandi móður. Móðurhlutverkið, menntunin, myndlistin, umhverfismálin, sjálfbærnin, tækni og vísindi og arkitektúr, átti hug Sissúar allan.

Foreldrar Sissúar voru yndislegar manneskjur, Páll S. Pálsson hæstaréttarlögmaður og Guðrún Stephensen uppeldisfræðingur. Blessuð sé minning þeirra. Húsið var fullt af krökkum og þangað var gaman að koma, enda systkinin átta, úrvalsfólk hvert á sínu sviði. Ekki eiga allir traust bakland en börn Guðrúnar og Páls leysa vandamálin saman. Sella systir hennar var æskuvinkona mín og Sissú fékk að skottast með okkur, því hún var svo góð. Þannig varð til ævilöng vinkonutenging okkar, eins og Sissú orðaði það. Það eru forréttindi að hafa kynnst Sissú, sem vildi vera sjálfstæð, gekk til allra verka og stóð keik með örlögum sínum hvað sem á reyndi. Þegar ég heimsótti hana á spítalann skömmu eftir slysið stundi ég upp: Elsku Sissú, nei, ekki þú! Af hverju ekki ég? svaraði hún þá.

Sissú hélt margar stórhuga sýningar í listasöfnum og galleríum, hér heima, í Evrópu, Bandaríkjunum og Kína, þótt hún nyti ekki náðar úthlutunarnefnda starfslauna. Mörg afar glæsileg myndlistarafrek liggja eftir Sissú, sem listunnendur og aðstandendur geta verið stoltir af. Ég minnist hennar með þakklæti fyrir vináttuna, höfðingskapinn og skilninginn, fyrir alla þá umvefjandi ást, sem frá henni streymdi, jólaboðin, afmælin og aðra vinafundi. Hún var víðsýn og vinamörg og við áttum margar góðar stundir saman. Myndlistin var áhugamál okkar beggja og dýrmætt að geta talað sama tungumál og skilja hvor aðra.

Sissú opnaði augu mín fyrir lífi fatlaðra. Hún varð sjálf bundin við hjólastól fyrir tvítugt en rak sig hvarvetna á kerfið. Í þá daga var ekki einu sinni hægt að leggja bíl fyrir utan TR. Aðgengi var alls staðar í molum og ótal hindranir, meira að segja í stólavali. Um síðir fóru menn að hlusta á hjólastólafólk og margt hefur breyst til batnaðar. Sissú vann ötullega fyrir Samband endurhæfðra mænuskaddaðra og ritstýrði tímariti SEM um tíma.Þegar mæðgurnar fluttu heim til Íslands eftir fimm sólskinsár í Nýju Mexíkó herjuðu eilífir flutningar og vinnustofuvandamál á vinkonu mína en aldrei gafst hún upp. Að lokum fannst yndisleg íbúð í Sörlaskjóli, Sissú sá um innréttingarnar og allt small á endanum saman.

Sólargeislinn Sunna Guðrún fjölgaði mannkyninu á fáum árum um fjögur falleg og mannvænleg börn. Sissú var orðin rík! Hún elskaði barnabörnin sín og sást oft með barn í fanginu í matarinnkaupum eða þrjú börn í bílnum á leið í útsýnis- eða ljósmyndatúr. Sissú skapaði, skrifaði, tók ljósmyndir, málaði málverk, gerði tölvuverk og bjó til þrívíddarverk alla tíð. Listagyðjan vék aldrei frá henni. Verkin lifa! Annarri eins baráttukonu hef ég ekki kynnst!

Elsku Sissú mín, kæra vinkona, ég þakka þér fyrir að hafa auðgað líf mitt á svo margan hátt. Far þú í friði inn í hið milda ljós og vertu áfram engillinn minn. Ég votta Sunnu Guðrúnu og börnunum, systkinum Sissú, öllum aðstandendum og vinum, innilega samúð mína.

Með ást og virðingu,þín vinkona,

Eva Benjamínsdóttir.

Kæra vinkona

Leiðir okkar Sissúar lágu fyrst saman fyrir 26 árum. Hún var sú fyrsta sem ég kynntist í stórri tengdafjölskyldu og hefur verið þar í fyrsta sæti allar götur síðan. Sissú var mjög sérstök, framúrstefnuleg í klæðaburði, með fríkaða hárgreiðslu, var sífellt að leita nýrra leiða, hugurinn flaug hátt og sérhver dagur fól í sér nýja sköpun. Ég var venjulegur laganemi sem eyddi mestum tíma mínum í að læra utan að, en þrátt fyrir það hve ólíkar við vorum, þá tókst með okkur góð og sterk vinátta. Sissú og Ívar, maðurinn minn, voru mjög náin systkini og báru hag hvort annars fyrir brjósti. Ég var svo heppin að fá að taka þátt í þeirri vináttu.

Sissú hafði vítt áhugasvið, sökkti sér niður í alls konar fræði svo sem stjörnu-, talna- og dulspeki, kynnti sér ólíka menningarheima og hin ýmsu trúarbrögð. Víðsýni hennar og fordómaleysi áttu líklega þátt í því hvað hún var skapandi og frjór listamaður. Sissú var mikill fagurkeri, allt sem hún lét frá sér var með listrænu ívafi; salatskálin, sushi-bakkinn, jólapakkinn, henni tókst alltaf að setja punktinn yfir i-ið. Sissú var einstaklega kjörkuð og lét ekkert aftra sér frá að gera það sem hugur stóð til. Aldrei kvartaði hún yfir aðstöðu sinni en hefði kosið að mæta sama fordómaleysi og hún sýndi öðrum. Sissú vildi ekki draga fólk í dilka og nálgaðist aðra á þeirra eigin forsendum. Einstakt var að fylgjast með því hvernig hún umgekkst börnin í fjölskyldunni og þá sérstaklega barnabörnin sín fjögur sem voru henni svo kær.

Með þakklæti kveð ég kæra vinkonu.

Gerður Thoroddsen.

Móðursystir mín

Sissú móðursystir mín var óvenjuleg og einstök manneskja að svo mörgu leyti. Hún var í afstöðu sinni til lífsins kannski fyrst og fremst listakona: hún nálgaðist lífið á leitandi, opinn, skapandi og frumlegan hátt. Hún var mjög næm og opin gagnvart öðru fólki, átti auðvelt með að mynda tengsl og skapa nánd og einn helsti eiginleiki hennar var örlæti.

Sissú passaði mig þegar ég var lítil og bjó með foreldrum mínum í Kaupmannahöfn og hún var allt frá upphafi hluti af mínu nánasta umhverfi. Á barnaskólaárum mínum, þegar við bjuggum í Stykkishólmi, var hún í námi erlendis en ávallt var hún nálæg. Ég var stolt af þessari flottu og frumlegu frænku minni sem var við myndlistarnám í New York, og frá heimsborginni bárust óvenjulegar og skemmtilegar gjafir, svo ólíkar öllu sem maður átti að venjast, og bréf þar sem talað var við mann eins og fullorðinn og ég gat lesið með stolti ávarp eins og „frænka mín og vinkona“. Sumarið þegar ég var þrettán ára bjó ég í Steinnesi hjá henni og afa og ömmu og passaði Sunnu litlu dóttur hennar. Fyrir leitandi ungling var gott að geta talað við Sissú, og mér fannst hún alltaf svo töff með sína beinskeyttu en hlýju framkomu, húmorinn og sinn óvenjulega fatastíl. Hún saumaði föt á sig og aðra, meðal annars æðislega bómullarsamfestinga sem hún teiknaði flott mynstur og myndir á. Og svo kynnti hún fyrir mér hinar fríkuðu hárkrumpur! Frumleg hugsun Sissúar, einbeittur vilji og persónulegur stíll var unglingnum skemmtilegur innblástur á margan hátt. Á menntaskólaárum mínum var hún líka alltaf til staðar og hafði einstakt lag á að nálgast mann eins og góður vinur og félagi, fremur en sextán árum eldri móðursystir.

Sissú var myndlistarkona sem skapaði frumleg og sérstæð myndverk, en næmt auga hennar og frumleiki á hinu myndræna sviði kom líka fram í því hvernig hún klæddi sig og hvernig hún endurskapaði umhverfi sitt á óvenjulegan og fallegan hátt. Heimili hennar var alltaf fallegt, flott og persónulegt, og gott og gaman að koma til hennar.

Sissú tókst á við margvíslega erfiðleika í lífinu, en mætti þeim með einstæðri þrautseigju og seiglu. Hún bjó yfir mikilli lífsorku og hafði óþrjótandi áhuga á lífinu. Sissú var andlega sinnuð og skilningsleitandi. Hún var sjálfstæð og áræðin í hugsun og hikaði ekki við að ögra því vanabundna. Hún kenndi manni mikið um mátt lífsgleðinnar og jákvæðrar hugsunar, og þegar ég minnist hennar sé ég fyrir mér hlýtt og kankvískt bros og svolítið prakkaralegt augnaráð, fullt af lifandi áhuga og forvitni.

Elsku Sissú, takk fyrir allt og allt.

Melkorka Tekla Ólafsdóttir.


Fljúgðu þar áfram

„Í brjóst mitt hefur dropið eitur

af vængjum hins svarta fugls

sem fló fyrir brjóst mitt

og stjörnurnar sem brostu kankvíslega

í litlum skýjagluggum

hafa slökkt á kertum sínum

og gengið til náða.“

(Stefán Hörður)


Nú hefur Sigþrúður, vinkona mín, Pálsdóttir, slökkt á sínu kerti og gengið til náða, allt of fljótt. Og ekki er komist hjá því að hugurinn reiki, til liðinna gleðistunda, erfiðra sorgarstunda og tíma mikillar lífsbaráttu. Allar þessar stundir blandast saman í þeim lífsdrykk, sem Guð ber okkur og býður okkur að drekka.

Gleðistundirnar voru margar. Lífsnautn Sissúar var ótrúleg, allt frá því að við lékum okkur saman litlar stelpur í fjörunni í Skerjafirðinum og þar til við horfðum yfir þessar sömu strendur meira en fjörutíu árum síðar og veltum fyrir okkur lífsgátunni. Við ólumst upp í Skerjafirðinum en Sissú kom úr stórum systkinahópi í næsta húsi. Eiginlega var ég á yngri árum meira með Tótu, systur hennar, en þegar við uxum úr grasi sveiflaðist sambandið á milli systkina, eiginlega mátti segja að öll fjölskyldan væri vinur okkar í næstu húsum, áratug eftir áratug. Síðar áttum við eftir að aka saman margan bíltúrinn um Suðurland, þar sem alls konar nytjahlutir vöktu athygli, gömul postulínseinangrun af ónýtum rafmagnsstaurum og ljótur byggingastíll sumarbústaða, sem Sissú var ófeimin að lýsa skoðun sinni á, því hún var svo óskaplega frjó. Hún var myndlistarséní, en ekki bara það, heldur líka arkítekt með alveg einstaklega skemmtilegan stíl. Allt varð henni að list, meira að segja ónýtur vélbúnaður úr tölvum, en úr þeim gerði hún frábæra listaverkasýningu, sem hún kallaði minnISborgir framtíðar.

Lífið bauð Sissú göróttan drykk, sem hún drakk í botn og varð varla meint af. Að minnsta kosti ekki svo aðrir sæju. En meinin lágu samt á sínum stað og létu því miður að lokum á sér kræla.

Fjaran okkar er ennþá til, en henni hefur verið breytt í útivistarsvæði, sem er óaðgengilegt á köflum. Við getum þó ennþá staðið á varnarveggnum, þar sem við létum bylgjurnar drífa yfir okkur í vondu veðri, því stærri, því betri. Garðarnir þar sem við lékum okkur eru horfnir ofan í moldarhauga raunveruleikans. Og stærsta aldan hefur riðið yfir og fært Sissú í aðra veröld.

„nú er garðstígurinn þögull

og runnarnir ellibleikir

litlaust grasið bæra kaldir vindar

að ströndinni fellur svart brim.“

(Stefán Hörður)


Við, sem trúum á framhaldslíf vitum að þar eru þúsund litir til að leika sér að. Þar verður Sissú áfram hrókur alls fagnaðar.

Fljúgðu þar áfram, kæra vinkona.

Ragnheiður Erla Bjarnadóttir

Hetja

Hetja – og ekki venjuleg hversdagshetja því óhversdagslegri manneskju er vart að finna – er farin.

Mér úr nettri smáfjölskyldu liðlega tvítugri sem tengdadóttir og þar með mágkona Sissúar var stundum um og ó að koma inn í stórfjölskylduna. Þau höfðu þá búið í Steinnesi í Skerjafirðinum í nokkur ár. Þar var mikið um að vera og allir á ferð og flugi. Heimilið var öllum opið, fáar helgarnar sem ekki var fjölskyldusamkoma eða eitthvert systkinana með partí. Þau ólust upp við frelsi og höfðu öll sinn sjálfstæða vilja. Þau völdu hvert sitt. Sissúar leið var sú óhefðbundnasta og er þó nokkuð til jafnað.

Systkinin sinntu hefðbundnu bóklega náminu af mismiklum áhuga en öll með ágætis árangri. Sissú nennti því ekki meira en nauðsynlegt var. Hún tók sitt gagnfræðapróf og rauk svo út 16-17 ára að skoða heiminn, byrjaði á Köben. Hún var fædd „bóhem“ og í henni var sterkt listamannseðli. Hún lifði sínu lífi eftir því og hóf nám í samræmi við það.

Sissú var heilmikil sportstelpa. Hún deildi m.a. hestaáhuga með pabba og var góð skíðakona. Hún og Ívar bróðir brugðu sér á skíði. Hann var að ganga frá fyrir heimferð og hún rölti að brekku þar sem börn voru að leik. Hún fékk lánaða hjá einu þeirra bílslöngu í salíbunu sem varð örlagarík. Á smá ísbungu kastaðist hún af og fann fæturna dofna upp þar sem hún lá. Hryggurinn var brotinn og þrátt fyrir langa leit víða um lönd að lækningu var hjólastóllinn staðreynd. Hún var 19 ára þegar hún slasaðist.

Sissú hugnaðist seint að festa rætur. Eftir slysið fékk hún íbúð vestur í bæ, aðlagaða að hennar þörfum. Hún málaði hana ljósbleika og ljósbláa, galið að sjá fyrir ferkantað fólk sem bjó í hvítu og drapp! Þar var gestagangurinn engu líkur eins og alls staðar þar sem hún kom við, enda með afbrigðum vinsæl og þekkti margt skrautlegt fólk. Svo einn dag kom afsalið, íbúðin var hennar. Hún hringdi og sagði: „Nú finnst mér ég vera endanlega komin í fangelsi!“ Öryggið var of hefðbundið, hentaði ekki og hún fór út í heim og meira nám. Sama átti við allmörgum árum síðar um þessa líka fínu íbúð í SEM-blokkinni! Það var fyrst þegar hún eftir mörg flökkuár hérlendis og erlendis komst í íbúð í gömlu nýlenduvöruverslunarhúsnæði á yndislegum stað í vesturbænum að hún settist að með dótturinni, Sunnu.

Í gegnum allt hélt Sissú sínum listamannsferli áfram. Auk málverksins datt henni alltaf eitthvað nýtt í hug, óhefðbundin, frumleg og á undan sinni samtíð. Hverjum öðrum hefði dottið í hug að nota innviði úr afskrifuðum tölvum sem uppistöðu í listaverk?

Sissú var rík að fólki. Foreldrarnir stóðu að baki hennar meðan þau lifðu, systkinahópurinn allur og allnokkrir venslamenn þess utan auk kjarna úr vinahópnum. Í gegnum hennar flökkuferli bjó hún í par skipti í millibilsástandi um skeið á mínu heimili. Þannig kynntist ég þessari spes mágkonu minn enn betur en ella. Orðið uppgjöf var ekki í orðaforðanum og af henni mega margir mikið læra.

Sissú var stelpan í stysta fermingarkjólnum. Hún var sú fyrsta sem sást í maxipilsi. Í fyrra á fjölskyldusamkomu hafði ég orð á hvað hún væri í flott toppi. Hún „átti ekkert til þess að fara í“, tók því gamlan bol, fór í hann með hálsmálið niður og neðri hlutann lagaðan um hálsmálið! Smartasta pæjan í boðinu sitjandi í sínum hjólastól.

Fyrir stuttu greindist Sissú með skætt krabbamein. Og nú er hún farin.

Innilegar kveðjur til þín, Sunna mín, og litlu barnanna þinna fjögurra. Megi ykkur vegna sem best.

Hólmfríður Árnadóttir.

Yndisleg vinkona

Í dag kveðjum við yndislega vinkonu, sem var okkur svo kær, enda var alveg sama hvenær við hittumst, maður fann alltaf fyrir kærleika og umhyggju. Alltaf spurði hún um börnin okkar, gladdist með okkur yfir því sem við vorum að gera hverja stund. Vinskapurinn stóð yfir mörg ár, en Ívar yngsti bróðir Sissú er vinur okkar til margra áratuga og þau systkinin bæði æskuvinir Hjartar. Ógleymanleg er heimsókn okkar til Sissú í New York 1980, en þar hittum við barnsföður hennar í fyrsta sinn, heilsa og lífrænn matur var Sissú mjög hugleikinn en mjög framandi fyrir okkur og í þessari heimsókn var okkur var boðið upp á tófúsalat, sem reyndist mjög gott og eitthvað sem við höfum aldrei bragðað fyrr né síðar.

Hvar sem við höfum búið síðan 1988 höfum við haft Sissú hjá okkur í stofunni okkar en málverkið sem hún færði Hirti í þrítugsafmælisgjöf hefur oftar en ekki verið umræðuefni kvöldsins enda hangir það á besta stað í stofunni okkar, nafnið á málverkinu „Hún er ung, fögur og ómótstæðileg“ rétt eins og sú sem málaði verkið. Við þökkum Sissú fyrir samfylgdina og sendum systkinum Sissú og fjölskyldum þeirra okkar innilegustu samúðarkveðjur. Minningin um yndislega vinkonu og skemmtilegan félaga lifir og fyrir það er þakkað.

Hjörtur Nielsen og Ástríður Sigurrós

Með harm í hjarta ...

Með harm í hjarta kveð ég elskulega vinkonu mína, Sigþrúði Pálsdóttur. Sissú, eins og hún var kölluð, var ein kjarkmesta manneskja sem ég hef fyrirhitt. Þrátt fyrir að hafa lamast í neðri hluta líkamans 19 ára gömul þá ferðaðist hún um hálfan heiminn til náms og starfa. Hún var hámenntuð í öllum skilningi og leiftrandi gáfuð.

Kraftaverkið í lífi Sissúar var þegar hún eignaðist sólargeislann Sunnu. Sunna gaf mömmu sinni þá stærstu gjöf sem hægt er að gefa. Hún gaf henni fjögur heilbrigð og falleg ömmubörn sem Sissú unni takmarkalaust. Það var stórkostleg sjón að hitta Sissú í búðinni með tvö lítil börn. Það yngra sat á hnjám hennar og hélt á innkaupakörfu og hið eldra hélt í hjólastólinn og teygði sig eftir vörum sem Sissú náði ekki í. Mér fannst ég hafa hitt útilegumann Einars Jónssonar í eigin persónu.

Nokkrum dögum áður en krabbameinið lagði mína kæru vinkonu að velli hitti ég hana á líknardeildinni. Hún sat tignarleg eins og drottning, þráðbein í baki, í hjólastólnum sínum. Hún grét vegna þess að hún vildi ekki fara frá Sunnu og börnunum. Ég grét vegna hennar miklu sorgar.

Sunna mín góð: Þú ert ein af hetjunum sem fæddist af lamaðri móður og lærðir ung hvað lífið er. Þú munt ekki bugast nú frekar en endranær. Frá öðrum heimi mun mamma þín vaka yfir þér og börnunum og umvefja ykkur ást og hamingju.

Við Hrafnhildur sendum ykkur og stórfjölskyldunni innilegustu samúðarkveðjur.

Auður Guðjónsdóttir

Sissú var garpur

Sissú var garpur. Hún lifði á kjarki og bjartsýni og bauð öllu birginn ef með þurfti. Á unglingsárum brunaði hún í brekkunum þangað til grimmilegt slys skákaði henni af skíðunum í hjólastólinn. Hún var bálreið fyrstu árin en lagði sig alla fram í endurhæfingu og gerðist með afbrigðum handsterk. „Ég má ekki rýrna,“ sagði hún, „ég vil vera tilbúin strax og lækning finnst við mænusköddun og ég kemst á fætur aftur.“ Hún lifði ekki þá stund. En sigrinum náði Sissú með því að efla með sér speki og taktík, bæði gagnvart sjálfri sér og samferðafólki. Hún þróaði með sér lag til að ræða uppbyggilega við mænuskaðað fólk sem vildi bölva öllu fyrsta kastið. Hún hafði áhrif af því að fólk vissi hvað hún var að tala um. Dæmigert atvik gerðist árið 1985 þegar Sissú keppti í hjólastóla-torfæruakstri á íþróttamóti Sjálfsbjargar í Laugardalshöll. Keppendur á hjólastólum voru 12 stjórnmálamenn, 12 fatlaðir einstaklingar og 12 afreksmenn í íþróttum. Sissú var nú ekki mikil fyrir mann að sjá, tággrönn og fínleg. En hún gerði sér lítið fyrir og lagði alla þessa andstæðinga nema einn, varð önnur í viðureigninni og bar sigurorð af frægum íþróttaköppum, þeirra á meðal Jóni Páli Sigmarssyni aflraunakappa, sem hreifst af krafti og lipurð Sissúar.

Ég tengdist fjölskyldu Sissúar þegar hún var tæpra 14 ára og kynntist henni vel hér og þar og við ólíkar aðstæður. Hún var sprækur táningur í námi í Kaupmannahöfn. Hún var leiðsögumaðurinn um New York, allt á hjólastólnum. Hún kom akandi frá Reykjavík á eigin bíl í heimsókn til Akureyrar. Hún reyndi ekki að gera sér lífið makindalegt. Sama hátt hafði hún á í myndlistinni. Gagnrýnandi Morgunblaðsins, Valtýr Pétursson, skrifaði forviða í blaðið um sýningu hennar í febrúar 1987: „Þar sem Sigþrúður er bundin við hjólastól verður maður aldeilis hlessa yfir afköstum og dugnaði hennar við myndgerð. ...eiginlega er tæpast hægt að gera sér í hugarlund, að hreyfihamlaðir geti stundað það handverk, sem þarf til þess að koma saman málverki, en ef ástríða og vilji eru fyrir hendi virðist greinilega ekkert því til fyrirstöðu, að fólk nái ásetningi sínum á því sviði. Þetta kemur skýrt fram á sýningu Sigþrúðar Pálsdóttur...“

Sissú var vel ritfær eins og glöggt kom fram í grein sem hún skrifaði í Morgunblaðið í maí 2004. Erindið var að mótmæla þeirri hugmynd að láta reisa risavaxna eftirlíkingu af skáhallandi sverði stingast í Melatorg við Þjóðminjasafnið. Sissú spurði: „Stendur til að gera eftirlíkingar af þjóðminjum í framtíðinni svo við getum verið stolt af að vera gervimenningarþjóð? – Hvers vegna þurfum við að upphefja stríðstákn til þess að skilja eigin menningararf? Er okkar handverk eða þeir munir sem til eru frá okkar forfeðrum svo fáir eða veikburða að þeir geti ekki staðið af sér veður og vinda í nútímasamfélagi?“ Sissú kom sér beint að efninu, var hreinskilin, skelegg, einbeitt. Mikil listakona. Mikil kona.

Ólafur H. Torfason.

Hennar verður sárt saknað

Við kynntumst í æsku, en vinátta okkar byrjaði fyrir alvöru þegar við tókum upp bréfaskriftir, hún var í Danmörku og ég í Noregi. Ég bjó fyrir norðan þegar Sissú slasaðist. Hún fór í endurhæfingu til Danmerkur og til Frakklands með móður sinni og ég fékk daglegar lýsingar. Ég elskaði bréfin hennar, hún var svo skemmtilegur penni og bréfin listræn og litrík.

Árið 1976 fór ég til Bandaríkjanna og Sissú var í New York hjá Sellu systur sinni. Ég kom í heimsókn og þessi tími sem við áttum saman breytti lífi okkar. Það kyngdi niður snjó og við fórum þvers og kruss um borgina, ég ýtandi og dragandi hana yfir snjóskafla. Við vorum svo hamingjusamar og kátar yfir því að vera í þessari skemmtilegu borg og ákváðum að hér skyldum við búa. Við unnum við að aðstoða Sellu við að opna Pálsons veitingastað á 72. götu, sömu götu og við bjuggum í. Sissú sá um hönnun og listaverk fyrir staðinn. Við tókum teiknitíma á Art Students League. Allt var skemmtilegt og lífið brosti við okkur. Svo varð ég ástfangin af eiginmanni mínum Curt og flutti frá minni „Bestustu“. Hún ákvað að fara í listnám í School of Visual Arts. Hún kláraði námið og sneri aftur til Íslands. Sunna sólargeislinn hennar kom í heiminn og móðurhlutverkið varð í forgangi. Sissú kom aftur til Bandaríkjanna, núna til Nýju-Mexíkó. Hún ákvað að fara í arkítektúrnám. Námið höfðaði til hennar og það átti vel við hana að búa í hita, sól og flötu landslagi. Besta minningin þaðan var þegar hún, Sunna og ég fórum í skíðaferð og Sissú var á skíðum fyrir fatlaða. Hún komin í skíðabrekku aftur.

Með náminu málaði hún og teiknaði, eins og hún hefur alltaf gert. Hún var á undan sínum tíma með margt, það var ósjaldan að Sissú skapaði eitthvað frumlegt sem svo seinna var gert af öðrum og varð vinsælt. Listin var hennar líf. Heimilin voru síbreytileg listaverk. Veisluborðin sérstök og listræn. Hún átti varla sinn líka þegar kom að gestrisni. Hún og klæðaburðurinn voru listaverk. Það var erfitt hjá henni þegar hún fluttist aftur til Íslands þar til hún fann Faxaskjólið. Hér hafði hún útsýni yfir haf og himin. Það var þar sem litli fjölskyldukjarninn hennar spratt upp og hún elskaði ömmuhlutverkið. Það var henni mikilvægt að barnabörnin hefðu það gott hjá ömmu.

Sissú var allt sitt líf að læra og lesa. Margt af því sem hún hafði ástríðu til að lesa var langt ofar mínum skilningi. Úrvalsefni sem spannaði alheimsfræði, stjörnuspeki, dulspeki, vísindi og annað þvíumlíkt. Lestraráhugi hennar á þessum sviðum var djúpur og ástríðufullur, þetta var allt tengt hennar list sköpun. Lesturinn upplýsti verk hennar og verk hennar ollu þorsta í þennan lestur.

Hennar verður sárt saknað.

Við Curt vottum Sunnu og börnum, systkinum og öðrum ættingjum innilega samúð.

Hólmfríður (Hóffý).


Með óbilandi vilja

Hvað ertu, líf, nema litur?

Ljósblettir ótal,

á dauðasæ lygnum er leiftra

í lífssólar skini.

Hví ertu lífröðull ljósi

svo ljúfur og fagur?

Hví ertu helsærinn kyrri

svo hulinn og djúpur?

(Steingr. Thorsteinsson)


Sigþrúður Pálsdóttir kvaddi þennan heim á sólbjörtum fögrum sumardegi. Litbrigðin í lífi Sigþrúðar voru margvísleg, oftar en ekki ljós, en ef ekki þá snéri hún þeim með óbilandi vilja, dugnaði og þrautseigju ávallt í ljósið.

Kynni okkar ná allt aftur til unglingsáranna, frá þeim tíma að samband komst á á milli þeirra Hagaskólastelpna og vinahópsins í Lönguhlíðinni. Þau sterku vinabönd sem þá mynduðust héldust ávallt þrátt fyrir lengri og skemmri aðskilnað á lífsleiðinni. Að mæta hennar fallega brosi og eiga með henni samverustundir, þar sem hún deildi gjarna áhuga sínum á hinum fjölmörgu og ótrúlega ólíku hlutum, allt frá yfirskilvitlegum yfir í hátækni og nánast allt þar á milli, var alltaf jafn gefandi. Við erum þakklát fyrir að hafa fengið að vera samferðamenn Sigþrúðar Pálsdóttur. Far þú í friði.

Við vottum Sunnu, Frosta, Freyju, Frey, Max, systkinum Sigþrúðar og fjölskyldum þeirra okkar dýpstu samúð.

Halla María og Tryggvi.

Tær fyrirmynd

Dýpst í hjarta okkar býr mikil eftirsjá eftir þeirri einstöku, sterku og hjartahlýju konu sem Sigþrúður Pálsdóttir var í öllu sínu lifandi lífi. Í henni bjó blómi alls þess bezta sem manneskju getur prýtt og vorum við hreykin að þekkja svo óvenju þroskaða manneskju. Þakklát ennfremur fyrir það tækifæri að hafa fengið að rækta einlægan vinskap við yndislega persónu sem bjó yfir svo gegnheilli skapgerð og ljúfu eðli.

Í okkar augum var Sissú ein af hetjum lífsins og tær fyrirmynd sem skildi eftir sig þann boðskap að ekkert væri í veröldinni óframkvæmanlegt; lífið væri líf fagnaðar, mannelsku, hláturmildi og upphafningar en eigi barlómur sjálfsins sem hún hélt fjarri. Erfiðleikar væru til þess gerðir að yfirvinna þá með ósérhlífnum eigin styrk. Allar dyr veraldarinnar stæðu opnar öllum sem vildu gegnum þær fara í víðasta skilningi orðanna.

Miklir og hlýir kærleikar tókust með okkur snemma á ævinni, hérlendis sem í útlöndum og var líf hennar og Sunnu tíðum margofið okkar. Hún var dásamlegur áhrifavaldur sem nú, á þessari jarðnesku kveðjustund, skilur eftir sig barmafullan bikar fallegustu minninga er hvergi ber skugga á. Nærri stóð hún þá er Gígja Ísis kom í heiminn, gerðist eiginlega guðmóðir hennar og valdi henni það gyðjukennda miðnefni er hún ber. Á hennar gólfi gekk ungviði okkar sín fyrstu skref þá er við áttum heilt sumarlangt dásemdarævintýri með henni og fleiri vinum okkar í Santa Fe, Nýju-Mexíkó og víðáttunum þar í kring.

Sissú hafði ákaflega líflegan hlátur og fallegt bros og tísti oft í henni enda var kímnigáfa hennar ávallt ljóslifandi og hispurslaus. Létt stríðni var henni eðlislæg og beitt óspart. Hún hló svo eftir á dillandi með gleðiglampa í augum. Hún sýndi það þrekvirki, þrátt fyrir hömlun sína, að sækja sér langa og stranga menntun bæði á sjón- og formrænum sviðum við þekkta háskóla og var ákaflega skapandi, skörp og frjó. Heimskona tengd víða um allar grundir, litglöð smekkkona fram í fingurgóma er ætíð bjó sér og sínum óaðfinnanlegt heimili og hún fagurbjó sig svo listilega að töfrum líktist fyrir mannamót þar sem hún var hrókur alls fagnaðar. Oftsinnis var hún umvafin vinum af öllum tegundum og gerðum. Ákaflega vel lesin og sérstaklega þá um hávísindi og andleg málefni sem voru henni afar hjartnæmt áhugamál og ástundun. Allt var í raun skemmtilegt sem hún sagði og hlustaði hver sem agndofa væri þegar hún opnaði huga sinn og sagði frá ferðalögum sínum hvort sem var á milli staða, heimsálfna eða sér til einskærrar ánægju, út úr líkamanum sjálfum.

Við munum minnast þessarar góðu æðruleysiskonu með fallegustu mögulegu hugsunum. Hún var svo gefandi, örlát, björt og svo einstaklega vinrækin að þær mörgu góðu stundir er við áttum saman á ólíkum völlum veraldarinnar munu aldrei gleymast heldur varðveitast sem síkvikur gleðigjafi í hjörtum okkar um ókomna tíð. Við sendum Sunnu og börnum hennar okkar vinarþel og hjartnæmar samúðarkveðjur svo og stórfjölskyldunni allri.

Guðjón, Gígja Ísis, Guðrún Helga og Neo.

Megi hin eilífa hvíld ...

Hinsta kveðja til vinkonu með hjartans þökk fyrir liðnar stundir og umvefjandi umhyggju fyrir mér og mínum:

Verði mér hugsað

að veðrahami lægðum

í undarlegri kyrrð

um óbuganleikans

blóm:

Ljósbera á mel,

lilju á strönd,

bláhvíta í fjörumöl,

eða burnirót á syllu:

þá veit ég ekki fyrr til,

vinur minn góður,

en ég hugsa til þín

og heimti seigluna

aftur.

Beri mig í eftirleit

að upprunans lindum

og reyni þar að lesa

af lifandi vatninu

lögmál þolgæðis

og lögmál drengskapar:

hvað niðar þá í hlustum

nema nafn þess vinar,

sem lögmál þau bæði

borið hefur ófölskvuð

dýpra flestum mönnum

í dulu brjósti.

Og hvenær fáum við þakkað

sem þessa höfum notið?

( Ólafur Jóhann Sigurðsson)


Elsku Sunna, barnabörn og fjölskyldan öll, mínar innilegustu samúðarkveðjur frá mér og minni fjölskyldu á kveðjustundu. Megi hin eilífa hvíld verða hjartans Sigþrúði góð.

Sigrún Sverrisdóttir.

Hún leitaði lausna

Yndisleg vinkona hefur kvatt þetta líf. Kaflaskipti í vináttu sem spannaði meira en 40 ár. Hennar mun verða sárt saknað.

Sigþrúður Pálsdóttir var um margt óvenjuleg kona. Hún var hljóðlát en hafði sterkar skoðanir á flestum hlutum. Skoðunum sínum flíkaði hún ekki, hún vildi ræða þær þegar hentaði, en kunni líka listina að hlusta og skilja.

Það æxlaðist svo að Sigþrúður gekk ekki auðveldu og beinu brautina í gegnum lífið. Slysið hræðilega sem rændi hana göngufærni varð að sjálfsögðu örlagavaldur í hennar lífi. En fyrir flesta aðra en hana hefði það slys þýtt endalok ævintýralífs og nýrra uppgötvana, ekki hjá henni. Hún lifði lífinu lifandi fram á síðustu stund. Hélt erlendis til náms og bjó víða, bæði í Evrópu og Bandaríkjunum.

Minningarnar eru óendanlega margar. Þar sem ég var stór og sæmilega kröftugur var ég oft í hlutverki burðarmanns. Í Klúbbnum í gamla daga þar sem fólk pirraði sig yfir að verið væri að bera uppádressaða skvísu milli hæða, í Berlín á næturklúbbum og einnig í New York. Aldrei datt neinum í hug annað en að þessi vel til hafða glæsimeyja væri að láta bera sig upp á grínið, engum datt í hug að í fatahenginu beið hjólastóll. Það var bara hennar einkamál.

Alltaf þegar maður talaði við Sigþrúði var hún upptekin af allt öðrum hlutum en sinni erfiðu lífsbaráttu. Það var svo ótrúlega auðvelt að gleyma því að hún væri bundin við hjólastól, hún var svo skemmtilega pjöttuð, alltaf smart í tauinu og fannst hjólastóllinn ekkert passa við „lúkkið“ og bað um að honum yrði stungið bakvið. Og hvað við hlógum að uppákomum þar sem ungir herrar gáfust ekki upp á að bjóða glæsimeynni upp í dans og skildu ekkert í hvað hún þrjóskaðist við.

Þegar maður hugsar um lífshlaup þessarar yndislegu konu getur maður ekki hugsað um annað en hvað maður getur lært af því. Hún fæddist inn í stóra og samheldna fjölskyldu, fjölskyldu sem ávallt stóð eins og klettur bak við hana. Hún gerði það sem hugur hennar stóð til, hún velti sér ekki upp úr vandamálum sínum, hún leitaði lausna. Dugnaðurinn og þrautseigjan er eitthvað sem við, sem höfum óskerta hreyfigetu, getum lært mikið af. Hún lét einfaldlega ekki stoppa sig. Og það sem er svo einkennandi fyrir listaverkin hennar er þessi mikli hugur og áræði, þau eru mörg ákaflega stór, djörf og litrík.


Ég held að við öll, vinir hennar, getum verið sammála um að í okkar samskiptum var það Sigþrúður sem gaf og við þáðum. Hún átti alltaf til sitt yndislega hlýja bros, ávallt allan heimsins tíma til að spjalla, hún var alltaf róleg og yfirveguð, hafði skoðanir á öllum hlutum og var alveg ótrúleg fróð um marga hluti, sérstaklega átti hið yfirnáttúrulega hug hennar. Hún var svo sannfærð um að í þessum heimi fyrirfinnst margt sem augað ekki sér.

Missir okkar allra er mikill, langmestur er þó missir Sunnu, einkadótturinnar, og ömmuenglanna fjögurra. Megi minningin um yndislega konu, sem gerði lífið svo miklu fallegra, vera þeim veganesti til framtíðar.

Páll Halldór Dungal


Þannig "erfði" ég Sissú

Ég var svo lánsöm að sitja við hliðina á Signýju í sjö ára bekk; þannig „erfði“ ég Sissú, Drekasystur mína í blíðu og stríðu, sem ég sá fyrst þriggja ára á Kvisthaganum. Við Sissú hittumst svo í Kaupmannahöfn 1972, hún gekk á móti mér há, grönn, glæsileg og feimin – og við vorum í eins fötum, stagbættum gallajökkum og pilsum við, saumuðum úr buxum. Mjög „laser og pjalter“ en töffasta dressið í bænum. Næst var í New York á 72nd Street frá 1978 til 1981, svo á Vesturvallagötunni frá 1984. Frá 1985 á ég minningu um þriggja ára Sunnu leggja vanga að bumbunni og kalla: „Komdu út, litla barn.“

Elska Sissúar í garð Helga sonar míns er geymd og aldrei gleymd. Hún er eina manneskjan sem ég hef enn hitt sem náði Foucault's Pendulum eins og hún væri að lesa Gagn og gaman. Við Sissú töluðum oft um sértæk vandamál Sporðdrekastúlkna, listir, saumaskap og séríslenskt óréttlæti undanfarin ár. Við hlógum að mörgu saman, en þessi 33 ár síðan í New York hefur hún ævinlega sagt mér af Sunnu og börnunum, systkinum sínum, þeirra mörgu afkomendum og mökum. Hinn 19.11. 2010 skrifar hún að Signý hafi eignast sonarson á afmælisdaginn minn daginn áður.

„Foreldrar Torfi og Bryndís, allir heilbrigðir. Til hamingju. Sissú.“


Síðast þegar við sátum saman, um jólin 2010, talaði hún um minningargreinar og ég pantaði að hún skrifaði um mig. Hún lofaði mér því (óbeðin), að vera ekki svo hallærisleg að ávarpa mig beint, eins og ég gæti lesið minningargrein um sjálfa mig.

En Sissú, ég var að sjá þessa frétt fyrir tveimur tímum. Ég hringdi fyrst í Signýju, það svaraði ekki. Svo í Ívar og þegar ég segi við hann: Ég var að sjá þessa frétt, andlát: Sigþrúður Pálsdóttir – þá ríður yfir þvílík þruma hérna úti í Kaupmannahöfn, að það var eins og þú værir að senda mér risakveðju – því þú ert ein af fáum sem veit að ég safna þrumuveðrum og get nefnt þau öll með stað og ártali.

Elsku hjartans smarta, bjarta, barngóða, hjartahreina, væna vinkona mín: Sunna, börn hennar, systkini þín og vinir um allan heim hafa þig ekki hér í þessum heimi lengur. Þín verður þó alltaf minnst fyrir síungan innblástur góðmennsku, heilunar og lífsgleði. Við sem nutum þeirra forréttinda að fá að kynnast þér eigum ævarandi minningar um einstaka stelpu sem af stafaði innri fegurð, birtu og yl.

Þórdís Bachmann.